Thursday, March 4, 2010

Le premier blog (Fyrsta bloggið)

Eftir brösuga bloggbyrjun er hugmyndin að blogga núna næstu dagana. Þetta er blogg nemenda og kennara í Kvennaskólanum sem hafa fræðst um París síðan í janúarbyrjun. Fjöldi nemenda er 21 og kennarinn heitir Jóhanna Björk Guðjónsdóttir.

Parísarferð Kvenskælinga (FRA475 Parísaráfangi) hefst í fyrramálið, kl. 5 að morgni á BSÍ. Allir eiga þá að vera búnir að pakka niður a.m.k. vegabréfi, dálitlum farareyri, góðum skóm, handklæði, hlýjum fatnaði og síma með hleðslutæki. Góða skapið er líka nauðsynlegur passi til Parísar. Frönskukunnáttan er að sjálfsögðu með í för, allir hafa lofað að reyna að tala einungis frönsku og íslensku í ferðinni. Með í för er Sigurbjörg Eðvarðsdóttir, frönskukennari í Kvennó og hlaupagarpur mikill en hún mun sjá um íþróttahliðina í ferðinni!

Við verðum á farfuglaheimilinu BVJ Paris Louvre í 1. hverfi (le premier arrondissement) þær þrjár nætur sem við gistum í París.

Dagskráin er þétt en ákaflega áhugaverð. Strax á morgun, föstudag, munum við skoða Notre-Dame kirkjuna og Louvre safnið en það er opið á föstudagskvöldum.

Við vonumst til að geta sett inn einhverjar myndir á meðan á ferðinni stendur.

À la prochaine !

Jóhanna Björk

No comments:

Post a Comment