Tuesday, March 9, 2010

Að lokinni ferð



Það voru lúnir ferðalangar sem komu sér fyrir í Icelandair vélinni á Charles de Gaulle flugvelli í gær um hádegisbil og flestir voru fljótir að sofna eftir að vélin fór af stað, þar með talin undirrituð.
Þetta var góð ferð til Parísar, við fórum mjög víða og dagskráin gekk upp að mestu. Það er auðvitað dálítill sprettur að fara svona í þriggja nátta ferð en þegar allt gengur upp er það í lagi.
Hópurinn var góður, nemendur úr mörgum bekkjum (alls fimm) náðu vel saman og það var mikil grínast og hlegið. Góða skapið réði ríkjum nánast allan tímann. Ég var ánægð með ferðafélagana og ferðina alla og held að mér sé óhætt að fullyrða að allir hafi upplifað eitthvað nýtt, framandi og óvænt á þessum þremur dögum í París. Vonandi langar alla nemendurna aftur til Parísar til að sjá og upplifa meira í þessari borg sem býður alltaf upp á eitthvað nýtt, í hvert sinn sem maður kemur þangað. Fyrir mig, sem hef komið nokkur oft til Parísar, er alltaf upplifun að koma til borgarinnar og í hvert sinn kynnist ég nýrri hlið á henni.
Á myndunum má sjá allan hópinn, annars vegar fyrir framan Notre-Dame kirkjuna á fyrsta degi ferðarinnar og hins vegar í Jardin des Plantes á öðrum degi (ásamt kennurunum tveimur).
Það verður gaman að fá ferðasöguna frá nemendunum sex sem urðu eftir til að eyða nokkrum viðbótardögum á meginlandinu, einn í London og fimm í París.
À la prochaine !
Jóhanna

No comments:

Post a Comment